top of page
shutterstock_285186332.jpg

Hvað er dáleiðsla?

„Dáleiðsla er vitundarástand sem felur í sér aukna einbeitingu, takmarkaða athygli á utanaðkomandi þætti og aukna getu til að bregðast við tillögum“.

The American Society of Clinical Hypnosis

Náttúrulegt ástand

 

Dáleiðsla er nokkuð sem við höfum öll upplifað, að minnsta kosti tvisvar á dag, alla ævi. Þegar við sofnum og vöknum förum við í gegnum ástand sem líkja má við dáleiðslu. Einnig höfum við flest, ef ekki öll, upplifað það að sökkva okkur svo niður í bíómynd að við verðum sífellt ómeðvitaðri um umhverfi okkar (t.d. í bíó, þar sem skrjáf í popppokum verður að bakgrunnshljóði eftir skamma stund) eða þegar við „fáum ryk í augun“ yfir söguþræði bíómyndar. Einnig höfum við mörg hver lent í því að vera að keyra og allt í einu uppgötvað að vera komin á leiðarenda en muna í raun ekkert eftir sjálfu ferðalaginu. Þá má í raun segja að undirvitundin hafi verið við stýrið á meðan meðvitaði hugurinn hafi reikað.

Meðferðartæki

 

Dáleiðsla nýtist bæði í leik og starfi. Hana er bæði hægt að nota til sjálfseflingar og einnig til að vinna á vandamálum sem eru að há einstaklingum.

Meðferðardáleiðsla felur í sér að nýta sér dáleiðslu til að ná fram breytingum í undirvitundinni. Þeim breytingum er náð fram með því að breyta ómeðvituðum, og stundum meðvituðum skilyrðingum sem við höfum orðið fyrir á lífsleiðinni.

Á lífsleiðinni verðum við fyrir utanaðkomandi áhrifum sem móta persónueinkenni okkar. Við verðum fyrir áhrifum frá umhverfi okkar, s.s. frá fjölskyldu okkar, skólanum, vinum okkar og samfélaginu í heild sinni.

Þessar utanaðkomandi skilyrði hafa áhrif á lífsgildi okkar, réttlætiskennd, skapgerð, o.s.frv.

Þó svo þessar skilyrðingar séu í lagflestum tilfellum af hinu góða þá geta þær líka virkað hamlandi fyrir okkur sem einstaklinga. Sem dæmi má nefna að barn sem er sagt að það sé heimskt og geti ekki lært neitt getur farið að trúa því að það sé í raun og veru heimskt og getur farið að réttlæta fyrir sér að það geti ekki hitt og þetta vegna þess að það sé svo heimskt. Því má segja að þessar skilyrðing geti varað fyrir lífstíð ef ekkert er gert til að breyta henni.

Það getur verið að einstaklingurinn viti meðvitað að þessi orð eigi ekki við. En það er oft ekki samræmi á milli þess sem við vitum meðvitað og það sem undirvitundin trúir. Undirvitund okkar ber alltaf hag okkar fyrir brjósti og með því að viðhalda þessum áhrifum sem við urðum fyrir er hún að forða okkur frá aðstæðum sem geta reynst okkur neikvæðar. Sem dæmi má nefna fælnir, kvíða, hræðsla við að tala fyrir framan fólk, o.s.frv.

Því getur dáleiðsla hjálpað við að breyta þess háttar skilyrðingum. Í dáleiðslu eigum við samskipti við undirvitundina og „leiðréttum“ skilyrðingar sem eru hamlandi fyrir einstaklinginn. Við vinnum með undirvitundinni að meðvituðum markmiðum dáleiðsluþegans, hvort sem það er að bæta eitthvað, s.s. sjálfstraust, eða þá að losa viðkomandi við neikvæð áhrif s.s. fælnir, kvíða, óæskilega ávana o.s.frv.

Hvernig fer meðferðardáleiðsla fram?

Öfugt við það sem margir halda þá er ekki bara til ein tegund meðferðardáleiðslu (sem notuð er í bíómyndunum). Það eru til margar tegundir meðferðardáleiðslu og fer það oftast eftir þeim markmiðum sem dáleiðsluþeginn vill ná fram hvaða meðferð dáleiðarinn ákveður að nota hverju sinni.

Það er líka einstaklingsbundið hversu marga meðferðartíma þarf til að ná fram meðvituðum markmiðum. Sumir dáleiðsluþegar finna strax fyrir miklum breytingum eftir fyrsta tímann, aðrir eftir annan tíma o.s.frv. Þó svo dáleiðarinn mæli með einhverjum sérstökum tímafjölda þá er sá tímafjöldi aðeins viðmið, þ.e.a.s. það sem flestir þurfa til að ná fram óskuðum breytingum. Það getur verið að viðkomandi dáleiðsluþegi þurfi færri tíma og svo getur það farið svo að þörf sé á fleiri tímum en upphaflega var lagt upp með.

Einnig hefur meðferðardáleiðsla sannað gildi sitt, ein og sér eða meðfram öðrum meðferðum t.d. við þunglyndi, ofsakvíða, áráttu- og þráhyggjuröskun, stami og svo mætti lengi telja. Einnig gagnast dáleiðsla þeim sem vilja breyta vana, s.s. hætta að reykja, létta sig, losna við sykurlöngun, o.s.frv. 

Það eru fleiri svið sem meðferðardáleiðsla getur reynst gagnleg þ.á.m til staðdeyfinga hjá tannlæknum, við aðgerðir og dáleiðsla hefur einnig verið notuð til svæfinga við uppskurði. Dáleiðsla hefur líka verið notuð til að draga úr kvíða fyrir aðgerðir sem og til að flýta fyrir bataferlinu eftir aðgerðir.

Svo hefur dáleiðsla líka verið notuð til að aðstoða barnshafandi konur til að losna við morgunógleði og líka til aðstoðar við sjálft fæðingarferlið (hypnobirthing).

Þetta er aðeins hluti af þeim atriðum þar sem meðferðardáleiðsla getur gagnast. Það væri of langt mál að fara út í öll þau atriði þar sem meðferðardáleiðsla getur komið að góðum notum. Það er best að spyrja dáleiðarann hvort hægt sé að nota dáleiðslumeðferð við því sem er að hrjá þig eða það sem  þig langar að bæta í þínu lífi.

Þumalputtareglan er að dáleiðsla virkar á allt sem er huglægt.

Hverjum gagnast meðferðardáleiðsla ekki?

Þó svo dáleiðslumeðferð geti komið að gagni fyrir langflest okkar þá gagnast hún því miður ekki öllum. Til að meðferðardáleiðsla (eða nokkurs konar hugrænar meðferðir yfir höfuð) skili árangri þarf að vera meðvitaður vilji fyrir því að ná árangri hjá meðferðarþeganum, þ.e. viðkomandi þarf að vilja breytingarnar.

Ef viðkomandi kemur í meðferð t.d. vegna reykinga vegna þess að makinn vill að hann/hún hætti að reykja þá minnkar það líkur á að meðferðin skili árangri. Hvatinn til breytinga þarf að koma frá einstaklingum sjálfum en ekki vegna utanaðkomandi þrýstings.

Meðferðartæki
bottom of page